Erlent

Felldu 75 uppreisnarmenn í Írak

Bandarískir hermenn hófu í gær áhlaup á stöðvar uppreisnarmanna í vesturhluta Íraks, við landamæri Sýrlands. Að minnsta kosti 75 liggja í valnum, þar á meðal erlendir málaliðar. Þetta voru samræmdar aðgerðir bandaríska flughersins og landgönguliða en grunur hefur leikið á að uppreisnarmenn væru að koma sér upp stöðvum í eyðimerkurhéraðinu Anbar sem á landamæri að Sýrlandi. Alls konar árásir, sjálfsmorðsárásir og ýmiss konar sprengjutilræði, hafa verið gríðaralgengar síðustu vikurnar á meðan reynt hefur verið að mynda nýja ríkisstjórn. Íraska þingið samþykkti loks í gær skipanir í síðustu ráðherraembættin, lykilembætti varnarmálaráðherra og olíumálaráðherra. Þá sór ríkisstjórnin aftur embættiseið í morgun en leiðtogar Kúrda höfðu mótmælt því að í fyrsta skipti sem það var gert gleymdist að minnast á orðið sambandsríki þegar talað var um Írak. Það steytir sem sagt á hverju einasta smáatriði og málin ganga hægt fyrir sig á meðan fólk er að venjast nýjum, lýðræðislegum vinnubrögðum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×