Innlent

Hjálpa á veiku fólki

Sigursteinn Másson, formaður Geðhjálpar, segir slys á borð við að fólki sé hleypt of snemma út af geðdeild allt of tíð. Hann segir ennfremur að nýju úrræði fyrir erfiðustu sjúklingana hafi verið komið á fót á Kleppsspítala. "Þegar mjög veiku fólki er vísað frá á þeim grundvelli að það sé of veikt á það aðeins um tvo möguleika að velja. Að lenda á götunni eða brjóta af sér í örvæntingu og lenda í fangelsi. Þetta nýja úrræði á að koma í veg fyrir þessa hluti," segir Sigursteinn. "Oft er þetta fólk sem vísað er frá meðferðarheimilum vegna þess að það er talið vera of geðveikt og svo er því vísað frá geðdeildum vegna þess að það er talið eiga mestmegnis í vandræðum með vímuefni." Sigursteinn segir hópinn ekki stóran, um tuttugu einstaklinga, sem á við svona erfið veikindi að stríða. Hann segist hafa nýlega setið á fundi með yfirmönnum geðsviðs Landspítalans þar sem nýja úrræðið var kynnt og það eigi að nýtast erfiðustu sjúklingunum. "Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því að menn ætli ekki að láta verkin tala. Það er lagaleg og siðferðisleg skylda hins opinbera að hjálpa þessu fólki."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×