Innlent

Notkun lyfsins hvergi meiri

Umtalsverð aukning hefur orðið á notkun lyfsins methylphenidats við athyglisbresti með ofvirkni á undanförnum árum hér á landi og enn meiri aukning á kostnaði, samkvæmt upplýsingum frá Tryggingastofnun ríkisins. Þetta kemur fram í svari Jóns Kristjánssonar heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Ástu R. Jóhannesdóttur Samfylkingunni um lyfjanotkun barna. Segir í svari heilbrigðisráðherra að samkvæmt upplýsingum frá Eftirlitsstofnun Sameinuðu þjóðanna með ávana- og fíkniefnum hafi notkun lyfsins hvergi verið meiri en á Íslandi árið 2003. Það ár mældist notkunin 5,27 dagskammtar á 1.000 íbúa og hafði þá aukist gríðarlega frá árinu 1999 þegar notkunin mældist 1,21 dagskammtur. Næstmesta notkunin var í Bandaríkjunum árið 2003, eða 5,21 dagskammtur, en þar í landi var notkunin mest í heiminum árið 1999 þegar hún mældist 4,32 dagskammtar. Sérstaða Íslands á Norðurlöndunum er áberandi en dagskammtar voru 0,40 í Danmörku, 0,29 í Finnlandi, 2,13 í Noregi og 0,35 í Svíþjóð. Talið er að um 2-5% barna þjáist af athyglisbresti með ofvirkni en hann er þrisvar til fjórum sinnum algengari hjá drengjum. Ráðherra ætlar að fela Landlækni og Miðstöð heilsuverndar barna að skoða hvernig best verði að bregðast við þeirri miklu aukningu á athyglisbresti og ofvirkni barna sem orðið hafi hér á landi að undanförnu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×