Innlent

Lettar í farbanni afskiptir

Tveir lettneskir verkamenn um fimmtugt, sem Héraðsdómur Austurlands úrskurðaði í farbann í síðustu viku, ráfa um á Kárahnjúkum peninga- og eirðarlausir. Oddur Friðriksson, yfirtrúnaðarmaður á Kárahnjúkum, segir framkomu GT verktaka, sem hafa verið ákærðir fyrir að ráða mennina til vinnu án atvinnuleyfis, óforsvaranlega. Oddur segir að þó Lettarnir séu einnig ákærðir í málinu líti hann frekar á þá sem saklaus fórnarlömb í málinu. "Þessi meðferð á mönnunum er ekki verjandi," segir Oddur. "Þeir eru hýstir hér uppi á Kárahnjúkum og hafa ekkert við að vera. Þeir hafa enga peninga milli handanna og fyrirtækið virðist alls ekki hafa sóma til að koma þeim til hjálpar. Þeir eru greinilega engar greiðslur að fá frá GT verktökum eða erlenda starfsmannafyrirtækinu sem hafði milligöngu um komu þeirra til landsins. Þeir fá að borða í mötuneytinu en meira er ekki gert fyrir þá. Ég skil ekki að fyrirtækið sjá ekki sóma sinn í því að hýsa þá almennilega og hugsa betur um þá. " Á meðan Lettarnir eru í farbanni mega þeir ekki að vinna neitt. Oddur segir að þeir gisti í skálum hjá GT verktökum en sem gefi skilja hafi þeir ekkert að gera. "Verst þykir mér samt að horfa upp á að þeir eru algjörlega peningalausir. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef þá hafa þeir fengið greiddar um sextíu þúsund krónur frá því þeir komu hingað um miðjan febrúar. Þar sem fyrirtækið hefur ekki gert neitt fyrir mennina þá hefur starfsfólk hérna séð aumur á þeim og reynt að safna einhverjum smáræðis peningum fyrir þá þannig að þeir eigi allavega fyrir sígarettum." Lettarnir eru ákærðir fyrir að aka hópferðabifreiðum fyrir GT verktaka á Kárahnjúkum og sinna viðhaldi þeirra án þess að hafa atvinnuleyfi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×