Innlent

Börn hjálpa börnum

Íslensk börn rétta indverskum jafnöldrum sínum nú hjálparhönd með því að safna fyrir skólabyggingu handa þeim. Meðal þeirra fyrstu verka var að fara að Bessastöðum þar sem forseti Íslands tók þeim fagnandi og gaf í marga söfnunarbauka. Söfnunin er á vegum ABC-barnahjálpar sem um árabil hefur styrkt börn á Indlandi og í Afríku og stendur hún fram yfir aðra helgi. Það eru skólabörn um allt land sem taka þátt í henni en nú á að safna fyrir stórri byggingu á Heimili litlu ljósanna á Indlandi. Þar búa 2.000 börn og er heimilið alfarið rekið fyrir íslenskt styrktarfé. Börn á Álftanesi fóru í morgun að Bessastöðum þar sem forsetinn bauð þeim inn í stásstofu. Fjöldi söfnunarbauka var á lofti og mátti forsetinn hafa sig allan við að setja í þá flesta. Hann sagði söfnunina vera mikilvægt uppeldisstarf sem opnaði krökkum á Íslandi sýn á annan heim og hvað Íslendingar væru í raun heppnir en að þeir ættu líka rétta fólki í öðrum álfum hjálparhönd. Ólafur Ragnar þekkir vel til á Indlandi og segir ástand þar víða bágborið í ýmsum skólum en menntunarviljinn sé mikill. Hann sagði krökkunum frá því þegar hann var á ferð í fátæku landi og börn hópuðust að bílnum. Í fyrstu héldu menn að þau væru að biðja um peninga en svo var ekki, þau voru að biðja um pappír og skriffæri. Eins og fyrr segir voru margir söfnunarbaukar á lofti á Bessastöðum en Ólafur Ragnar segist ekki hafa verið rúinn inn að skinni. Hann hafi því miður ekki verið búinn undir það að setja þúsundkall í alla baukana en honum hafi þó tekist að koma peningum í ansi marga og hann voni að landsmenn taki vel utan um söfnunina og krökkunum vel.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×