Innlent

Versnandi staða mannréttinda

Staða mannréttinda hefur versnað í heiminum eftir að stríðið gegn hryðjuverkum hófst. Þetta kom fram í máli Mary Robinson, fyrrum forseta Írlands og mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðana, í Hátíðarsal Háskólabíós í gær á ráðstefnu sem haldin var í tilefni af 75 ára afmæli Vigdísar Finnbogadóttur, fyrrum forseta. Í erindi sínu sagði hún að eftir árásina 11. september 2001 hefði hún reynt, án árangurs, að fá ráðamenn til að tala um árásina sem glæpi gegn mannkyni. Þess í stað hefði verið rætt um stríð gegn hryðjuverkum. Sagði hún að þessi orðanotkun hefði breytt framrásinni, sem hefði orðið önnur ef leiðtogar þjóða hefðu talað um glæp gegn mannkyni. Mary sagðist ekki vilja vera of gagnrýnin, en með því að flokka þetta sem glæp gegn mannkyni hefðu alþjóðlegar stofnanir og alþjóðlegir dómstólar mun frekar verið í stakk búnir til að taka á þessum glæpamönnum sem báru ábyrgð á árásinni. Það væri svo að fyrir þá sem væru hinu megin stríðsins, væri það ekki svo slæmt að standa í stríði. Stríðsmenn hefði ákveðna virðingu, sem glæpamenn hefðu ekki.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×