Innlent

Kaupa Símann út á landi

"Sveitarstjórnir landsins ættu að láta þau skilaboð ganga til íbúa sinna að ef þeir kaupi hlut í Símanum að þá muni sveitarfélag hans setja sömu upphæð til slíkra hlutarbréfafékaupa." Þetta er mat Hauks Más Sigurðssonar fyrrum forseta bæjarstjórnar Vesturbyggðar og núverandi varamanns í bæjarstjórn. "Með þessum hætti gætu sveitarfélögin bæði tryggt það að þeirra menn kæmu að stjórnun og gætu þar með tryggt að þjónustustig á landsbyggðinni minnki ekki og að við verðum ekki eftir á í uppbyggingu nýrrar tækni. Einnig er þetta arðsemis fjárfesting sem sveitarfélögin ættu að sjá sér hag í," segir Haukur. Birna Lárusdóttir forseti bæjarstjórnar Ísafjarðabæjar hefur efasemdir um hugmyndina. "Ísafjarðarbær gerir ekki ráð fyrir slíkum fjárfestingum og ég efast um að önnur sveitarfélög geri það. Hinsvegar er starfandi hér á Ísafirði eignarhaldsfélag sem bæjarstjórn kom á fót og stjórn þess gæti eflaust séð möguleika í slíkum fjárfestingum," sagði Birna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×