Innlent

Skal fá aðgang að heimtaugum

Póst- og fjarskiptastofnun hefur komist að þeirri niðurstöðu að Landssímanum hafi verið óheimilt að synja Og Vodafone um aðgang að heimtaugum í grunnneti. Fyrirtækið hefur síðastliðna þrjá mánuði leitast við að fá afgreiddar beiðnir um aðgang að heimtaugum vegna viðskiptavina Margmiðlunar, en Og Vodafone og Margmiðlun sameinuðust í október 2004. Póst- og fjarskiptastofnun telur að heildsala Landssímans geti ekki stöðvað einstakar beiðnir um flutning á ADSL-tengingum eða annarri þjónustu sem fyrirtækinu er skylt að veita með þeim rökum einum að vafi leiki á hvort viðkomandi viðskiptavinur hafi óskað eftir þjónustunni. „Hlutverk heildsölu, eins og hér stendur á, er að afgreiða beiðnir sem berast frá öðrum fjarskiptafyrirtækjum. Ef beiðnin uppfyllir þau skilyrði sem talin eru upp í viðmiðunartilboði Símans, viðauka 1a, 3. kafla,. 1.-9. tl., þá ber að veita aðgang,“ segir í ákvörðun stofnunarinnar. Því beri Símanum að afgreiða beiðnir Og Vodafone enda beri Og Vodafone ábyrgð á því að viðskiptavinir hafi vilja að þær yrðu sendar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×