Innlent

Lokunin dapurleg tíðindi

Landbúnaðarráðherra og skrifstofustjóri umhverfisráðuneytisins eru sammála um að lokun kjötmjölsverksmiðjunnar í Hraungerðishreppi séu dapurleg tíðindi og skref aftur á bak. Ráðherra segir að til greina geti komið að leggja úrvinnslugjald á hverja skepnu sem slátrað er. Á morgun verður kjötmjölsverksmiðjunni lokað og fáar aðrar úrlausnir en að urða sláturúrgang. Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra og Ingimar Sigurðsson, skrifstofustjóri hjá umhverfisráðuneytinu, segja báðir að best væri að brenna sláturúrgang áfram í verksmiðjunni en til þess þurfi að finna leið til að reka verksmiðjuna. Guðni segir að verið sé að skoða hvort leggja eigi á úrvinnslugjald til að standa staum af kostnaði. Ingimar segir að ekki séu gerðar kröfur um brennslu á svona úrgangi í dag. Hins vegar verði án efa bannað að urða hann innan 15-20 ára og því verði að bregðast við með öðrum úrræðum. Þegar verksmiðjan var tekin í notkun árið 2000 stóð til að selja kjötmjölið og hafa þannig tekjur af starfseminni. Guðni segist telja heppilegt að þeir sem stofnuðu til verksmiðjunnar breyti henni í eyðingarverksmiðju og nái saman með sveitarfélögunum um það.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×