Innlent

Vilja skýrar reglur

Átak verkalýðshreyfingarinnar gegn ráðningu íslenskra fyrirtækja á erlendum starfsmönnum án atvinnuleyfis og innflutningur á þeim á grundvelli þjónustusamninga snýst um það að leikreglur á íslenskum vinnumarkaði séu virtar. Þetta segir Skúli Thoroddsen, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins. Skúli segir að starfsumhverfi sé að breytast í íslensku atvinnulífi með tilkomu EES-samningsins og stækkun Evrópusambandsins. Framboð á vinnuafli sé miklu meira en áður og fari ekki minnkandi, frekar þvert á móti enda opnist vinnumarkaðurinn upp á gátt eftir eitt ár. "Íslenskir atvinnurekendur og verktakar geta flutt inn vinnuafl í gegnum starfsmannaleigur. Portúgalskar starfsmannaleigur heyra undir opinbert eftirlit í Portúgal. Starfsmannaleigur í baltnesku löndunum eru ekki undir neinu opinberu eftirliti svo að við vitum. Við höfum ekki hugmynd um á hvaða kjörum þetta fólk er að koma frá þeim löndum til Íslands. Þetta felur í sér undirboð á íslenskum vinnumarkaði og skekkir samkeppnisstöðu fyrirtækjanna. Það er alveg ljóst," segir hann. Verkalýðshreyfingin er ósátt við að atvinnurekendur ráði erlent starfsfólk án atvinnuleyfis og í gegnum þjónustusamninga framhjá kjarasamningum. Milliliður er þá kominn milli fyrirtækisins og starfsmannsins og starfsöryggi starfsmannsins verður ótryggt og ógegnsætt. "Við höfum verið að krefjast þess af stjórnvöldum að það séu settar reglur um þessar starfsmannaleigur þannig að þær séu viðurkenndar hér á landi. Við erum ekki að tala um að banna útlendingum að vinna á Íslandi, alls ekki. Í ljósi breyttra aðstæðna þurfum við að fá skýrar leikreglur til þess að samkeppnisstaða íslensku fyrirtækjanna skekkist ekki."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×