Innlent

Gula spjaldið á loft

"Virðulegi forseti, ég hef hér orðið," sagði Lúðvík Bergvinsson, þingmaður Samfylkingarinnar, í umræðum um störf Alþingis á miðvikudag. Þetta var meira en góðu hófi gegndi að mati Halldórs Blöndal þingforseta, sem vítti þingmanninn. Þingvítur voru fáheyrðar og aðeins að finna í sögubókum fram til ársins 2002 þegar Halldór Blöndal vítti Ögmund Jónasson, Vinstri grænum, fyrir að segja: "Það þekkir hann alla vega, háttvísina, hæstvirtur forseti". Halldór var hvattur af framsóknarþingmönnunum Magnúsi Stefánssyni og Valgerði Sverrisdóttur til að víta Ögmund og tók hann þau á orðinu. Ári síðar, í febrúar 2003, sagði Lúðvík Bergvinsson: "Virðulegur forseti ætti heldur ekki að misnota stöðu sína í forsetastóli". Starfslok fyrrverandi forstjóra Símans voru til umræðu og kallaði Lúðvík orð sín úr sæti sínu, líkt og Ögmundur gerði ári áður. Á miðvikudag stóð Lúðvík hins vegar í pontu. Eldri þingvítur voru rifjaðar upp þegar vítaskeiðið hið síðara hófst í febrúar 2002. Lögðust fróðir menn og minnugir yfir söguna og fundu þrjú tilvik um og upp úr miðri síðustu öld. Árið 1950 var Magnús Kjartansson varaþingmaður Sósíalistaflokksins víttur fyrir meiðandi ummæli, Páll Zóphóníasson þingmaður Framsóknarflokksins var víttur 1953 fyrir að blóta í ræðu og 1957 var Sigurður Bjarnason Sjálfstæðisflokki víttur fyrir að rægja framsóknarmenn. Í fundarsköpum flestra sveitarfélaga landsins er svo að segja samhljóða ákvæði þar sem kveðið er á um vítur líkt og í þingsköpum Alþingis. Eftir því sem næst verður komist hefur ákvæðinu ekki verið beitt á þeim bæjum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×