Innlent

Sættir náðust á síðustu stundu

Sættir hafa náðst í deilum milli sjálfstæðismanna í sveitarstjórn Skagafjarðar. Með því var komið í veg fyrir að vantraust yrði samþykkt á Gísla Gunnarsson forseta sveitarstjórnar og oddvita Sjálfstæðismanna. Meirihluti Sjálfstæðismanna og Vinstri grænna í Skagafirði heldur því velli enn um sinn. Séra Gísli Gunnarsson boðar hins vegar brotthvarf sitt af sviði stjórnmálanna þegar þessu kjörtímabili lýkur að ári, en hann hefur þá verið oddviti D-listans í átta ár. "Ég reikna alls ekki með því að ég sækist eftir því að leiða lista Sjálfstæðismanna né að vera á lista í næstu kosningum, segir hann og kveðst ætla að einbeita sér að prestsstörfum en hann er starfandi sóknarprestur í Glaumbæ. Deilur spruttu nýverið milli Gísla og Bjarna Maronssonar eins þriggja fulltrúa Sjálfstæðismanna í sveitarstjórn og oddvita flokksins, eftir að Gísli hafði úrskurðað Bjarna vanhæfan til þátttöku í afgreiðslu fundargerðar. Í kjölfarið lýsti Bjarni því yfir að hann styddi Gísla ekki lengur sem forseta og hefði meirihlutinn því fallið að óbreyttu. Á fundi Sjálfstæðismanna í Skagafirði í fyrrakvöld tókst hins vegar að bera klæði á vopnin og þar með var lífi meirihlutans borgið um sinn að minnsta kosti. Deilendur sættast á að hæfi Bjarna Maronssonar í áðurgreindu máli hafi orkað tvímælis en að Gísla hafi jafnframt borið að leggja hæfið í dóm fundarins í stað þess að úrskurða um það sjálfur. "Það var mín ákvörðun að þiggja þessar sættir í málinu bæði vegna þess að Gísli viðurkenndi að hafa misbeitt valdi sínu en líka er stutt er eftir af kjörtímabilinu og óvíst hvað við tæki í sveitarstjórn ef meirihlutinn félli", segir Bjarni Maronsson.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×