Innlent

Sérhæfð meðferð fyrir geðsjúka

Stofnað hefur verið svokallað vettvangsteymi og sérhæfð meðferðardeild fyrir langveika geðsjúka sem þjást af geðrofs- og fíkniefnasjúkdómum og hafa rekist illa innan kerfisins.  Mikið hefur verið kvartað yfir skorti á úrræðum fyrir alvarlega geðsjúka einstaklinga sem eru í fíkniefnaneyslu og eða þá sem ekki viðurkenna sjukdóm sinn og fjölskyldan getur ekki neytt til að fara í meðferð. Þrír starfsmenn mynda teymið: einn félagsráðgjafi, einn geðhjúkrunarfræðingur og Kristófer Þorleifsson, aðstoðaryfirlæknir á Kleppi. Hann segir þarna um að ræða mjög alvarlega geðsjúka einstaklinga sem hafa haft mjög laka meðferðarheldni og lítið innsæi í sinn sjúkleika. „Oftast er þá um að ræða alvarlegan geðrofssjúkdóm eins og geðklofa, og gjarnan þá samhliða einnig fíkniefnavandamál,“ segir Kristófer. Kristófer segir þennan hóp oft hafa átt erfitt með að halda út meðferð, margir geðklofasjúklingar viðurkenni heldur ekki sjúkdóm sinn, einkum til að byrja með, svo þetta muni tvímælalaust létta álagi af mörgum fjölskyldum. En þetta er ekki lausn fyrir alla þá sem eru t.d. með persónuleikaraskanir af völdum fíkniefnaneyslu, eða þá sem hafa gerst brotlegir við lög. Kristófer segir þetta eiga fyrst og fremst við um hina alvarlegu geðsjúku. Hvorki sé til teymi eða deildir til að sinna öllum fíklum landsins, enda aðeins lítið brot af þeim sem þjást af slíkum geðsjúkdómum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×