Innlent

Skurðstofu allan sólarhringinn

Hjónin Einar Árnason og Karen Hilmarsdóttir, sem misstu dóttur sína í lok janúar, afhentu Jóni Kristjánssyni heilbrigðisráðherra undirskriftalista tæplega 5000 íbúa Suðurnesja í gær, að viðstöddum flestum þingmönnum Suðurlandskjördæmis. Þar er hvatt til þess að öryggi íbúa í Reykjanesbæ verði tryggt með því að skurðstofan við Heilbrigðisstofnun Suðurnesja verði opin allan sólarhringinn. Einar segir að um tíu konur í fæðingu í Reykjanesbæ hafi verið fluttar beint á skurðstofu á Landspítalanum á síðasta ári. Eins og segir í áskorun til ráðherra vilja þau hjónin að barist verði fyrir því að öryggi verði veitt, "svo að ekki þurfi að koma upp mál eins og [þau] lentu í þann 21. janúar síðastliðinn þegar [þau] misstu litlu dóttur [sína]. Þegar lífið liggur við er ansi langt að fara Reykjanesbrautina til að þurfa að sækja bráðaþjónustu." Einar og Karen hófu söfnun undirskrifta fyrir um mánuði síðan. Undirskrifarlistar hafa legið frammi í verslunum, söluturnum og á bensínstöðvum í sveitarfélaginu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×