Innlent

Baráttumál í höfn

"Þetta er eitthvað sem við erum búin að vera að berjast fyrir í einhvern tíma, að afnema gengisáhættu," segir Heiður Reynisdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka íslenskra námsmanna erlendis (SÍNE) um þá nýbreytni Sparisjóðs Vélstjóra að bjóða námsmönnum erlendis upp á yfirdráttarlán í erlendri mynt. "Við sendum bréf til allra banka í byrjun árs og spurðum hvort hægt væri að bjóða upp á yfirdrátt í erlendri mynt. Sparisjóður Vélstjóra brást bara skjótt við og er farinn að bjóða þessa þjónustu. Þetta er mikið framfaraskref og ætti að koma í veg fyrir, eins og þróunin hefur verið, stórfellt gengistap." Heiður segir nema erlendis hafa tapað á því að undanförnu að vegna styrkingu krónunnar hefur lán LÍN verið lægra í íslenskum krónum en reiknað hafði verið með að hausti. "Námsmaður getur því ekki hreinsað upp yfirdráttinn. Með þessu skiptir gengi krónunnar engu máli fyrir námsmanninn og við hljótum að eiga eftir að sjá fleiri banka og sparisjóði fara sömu leið."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×