Innlent

Veiran send vegna forvarna

Stórhættuleg flensuveira, sem hægt væri að nota til að búa til banvæn sýklavopn, var send fyrir mistök á rannsóknarstofur um allan heim. Nú eru yfirvöld hvött til að eyða þessari veiru hið snarasta. Það voru bandarískir meinafræðingar sem létu sýnishorn af þessari banvænu inflúensuveiru fylgja með í tilraunabúnaði sem var í vetur sendur á tæplega fjögur þúsund rannsóknarstofur í átján löndum, frá Brasilíu til Ísraels, Líbanons, Sádi-Arabíu og Suður-Kóreu. Eftir því sem næst verður komist var þessi veira ekki send hingað til Íslands. Þessi inflúensuveira veldur svokallaðri Asíuinflúensu sem er stórhættuleg og banvæn ef ekki er rétt með hana farið. Á einu ári, árið 1957, dóu allt að fjórar milljónir manna úr þessari flensu en hennar hefur ekki orðið vart síðan 1968. Fólk sem er fætt eftir það hefur ekki mótefni gegn veirunni og því gæti hún valdið miklu manntjóni ef hún breiddist út. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin segir að hætta á útbreiðslu veirunnar sé ekki mikil þar sem engar fregnir hafi enn borist af smiti. Stofnunin varar hins vegar við því að aðeins þurfi einn að smitast af þessari flensu til að hætta sé á heimsfaraldri. Megin áhyggjur manna snúast hins vegar að því að hryðjuverkahópar komist yfir þessa veiru og noti hana á einhvern hátt til að búa til banvæn sýklavopn. Þegar hefur verið haft samband við allar rannsóknarstofurnar sem fengu sýnishorn af veirunni og vonast er til að búið verði að útrýma henni fyrir vikulok. Þó er viðurkennt að aldrei verður hægt að staðfesta hvort öllum sýnishornunum hefur raunverulega verið eytt. Aðspurður af hverju verið sé að senda svona hættuleg sýnishorn á milli heimshluta segir Haraldur Briem sóttvarnalæknir að það sé gert til að hægt sé að búa til prófefni og próf til að geta greint veiruna ef hún færi af stað. Hann segir allar rannsóknarstofurnar hins vegar mjög vel búnar, þó vissulega geti alltaf átt sér stað slys, svo ekki sé talað um ef einhver reyni af ásetningi að koma veiru sem þessari út í samfélagið. 



Fleiri fréttir

Sjá meira


×