Innlent

Og Vodafone skal gæta jafnræðis

Fyrirtækið Og Vodafone skal gæta jafnræðis að því er varðar svokallaða lúkningu símtala inn á farsímanet sitt samkvæmt ákvörðun Póst og fjarskiptastofnunar. Hefur fyrirtækið 30 daga til að sýna fram á með gögnum að fyrirmælunum hafi verið fylgt eftir að öðrum kosti verður gripið til annarra ráðstafana. Ákvörðunin er byggð á skyldum þeirra fyrirtækja sem úrskurðuð hafa verið með umtalsverða markaðshlutdeild sé skylt að gæta jafnræðis. Og Vodafone falli undir þær reglur og því gert að hlíta úrskurði Póst og fjarskiptastofnunar. Jafnframt er sú skylda lögð á fyrirtækið að sama gjald sé tekið af viðskiptavinum óháð því úr hvaða neti símtalið er upprunið. Rök Og Vodafone voru að kvöð um jafnræði vegna markaðshlutdeildar hefði ekki myndast sjálfkrafa með nýjum fjarskiptalögum en Póst og fjarskiptastofnun hefur nú skorið úr um það.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×