Erlent

Æðstu menn Íraks svarnir í embætti

Forseti og varaforsetar Íraks sóru embættiseiða í gær og útnefndu sjía-múslimann Ibrahim al-Jaafari forsætisráðherra, en það er valdamesta embættið í hinu nýja bráðabirgðastjórnkerfi landsins. Varanlegt verður það ekki fyrr en eftir samþykkt nýrrar stjórnarskrár, en stefnt er að því að það verði gert fyrir haustið svo að kosningar á grundvelli hennar geti farið fram í desember. Þar með er tekin við völdum fyrsta ríkisstjórnin frá því landið hlaut sjálfstæði fyrir hálfri öld, sem hefur lýðræðislegt umboð meirihluta landsmanna, og þriðja bráðabirgðastjórnin frá því Saddam Hussein var steypt við innrás Bandaríkjamanna og bandamanna þeirra fyrir tveimur árum. Al-Jaafari hefur tveggja vikna frest til að skipa aðra ráðherra í ríkisstjórnina, en fyrsta verk hennar verður að vinna drög að nýju stjórnarskránni. Eftir embættiseiðinn sór forsetinn Jalal Talabani þess eið að kveða niður uppreisnaröflin í landinu, sem staðið hafa fyrir stöðugum hryðjuverkaárásum. Hann lagði einnig áherslu á að fá súnní-araba til að taka virkari þátt í uppbyggingu hins nýja lýðræðisstjórnkerfis, en úr þeirra hópi kemur kjarni uppreisnarhreyfingarinnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×