Erlent

Páfi íhugaði afsögn

Stöðugur straumur pílagríma, margir með útilegubúnað á bakinu, lá til Vatíkansins í Róm í gær og bættust í mannmergðina sem hefur flykkst til þessa minnsta sjálfstæða ríkis heims til að vera við útför Jóhannesar Páls II páfa, sem fram fer í dag. Um fjórar milljónir pílagríma höfðu í gær lagt leið sína að Páfagarði frá því páfi lést um síðustu helgi, að því er lögreglustjóri Rómaborgar greindi frá. Giskað er á að fimmti hver íbúi Póllands, hátt í tvær milljónir, hafi lagt leið sína til borgarinnar eilífu til að kveðja hinstu kveðju páfann sem var óskabarn - eða öllu heldur óskafaðir - pólsku þjóðarinnar. Upplýst var í gær að Jóhannes Páll II hefði í erfðaskrá sinni greint frá því að hann hefði íhugað afsögn á árinu 2000, er hann náði 80 ára aldri og heilsan var byrjuð að bila. Páfagarður birti erfðaskrána í heilu lagi í gær, eftir að lokið hafði verið við að þýða hana á ítölsku úr pólsku. Í erfðaskránni þakkar páfi öðrum trúarbrögðum, sem og vísindamönnum, listamönnum og stjórnmálamönnum, fyrir stuðning þeirra við ævistarf sitt. Páfi hóf að rita erfðaskrána mjög fljótlega eftir að hann settist á páfastól fyrir 26 og hálfu ári og hélt áfram að bæta við hana allan tímann. Fordæmislaust er hve margir leiðtogar annarra trúarbragða og kirkjudeilda verða við útför páfa í þetta sinn. Það hefu aldrei áður gerst að æðstu leiðtogar rétttrúnaðarkirkjunnar, armensku postulakirkjunnar og ensku biskupakirkjunnar verða við útför páfa. Jafnvel klerkastjórnin í Íran sendir sjálfan þjóðhöfingjann, og Ísrael utanríkisráðherrann og einn æðsta rabbína gyðingdóms. Í Tyrklandi, þar sem sárafáir rómversk-kaþólskir búa, hefur ríkisstjórnin ákveðið að fánar skuli dregnir í hálfa stöng - sem er athyglisvert þegar hugsað er til þess að í tyrkneska þjóðfánanum er íslamski hálfmáninn. "Hann var ekki aðeins leiðtogi hins kaþólska heims, hann var einnig leiðtogi fyrir friði og samræðu milli trúarbragða," lét Recep Tayyip Erdogan, forsætisráðherra Tyrklands, hafa eftir sér er hann lagði af stað til Rómar til að vera við útförina.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×