Innlent

Vilja reykingabann eftir tvö ár

Á aðalfundi Samtaka ferðaþjónustunnar, sem nú stendur yfir, leggur vinnuhópur veitingamanna fyrir fundinn í dag að tekið verði upp algert reykingabann á veitinga- og skemmtistöðum1. júní 2007. Verði tillaga hópsins samþykkt teldist það til fárra undantekninga í heiminum að veitingamenn taki sjálfir frumkvæði að reykingabanni en það hefur hingað til komið frá stjórnvöldum vegna þrýstings frá heilbrigðisstéttum og þrýstihópum þeirra sem ekki reykja. Víða um lönd hafa veitingamenn mótmælt slíku banni af ótta við að missa viðskipti við reykingamenn. En hvað veldur þessari afstöðu veitingamanna sjálfra? Erna Hauksdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, segir að í raun og veru hafi veitingamenn ákveðið að ganga fram fyrir skjöldu og taka þessa ákvörðun sjálfir. Þeir geri sér grein fyrir því að von sé á slíkum lögum víða um lönd og vilji fá tvö ár til að aðlagast slíkum lögum. Erna segir enn fremur að margir séu komnir mjög langt í þessum efnum og flestallir matsalir á betri stöðum séu orðnir reyklausir. Ákveðið hafi verið samhljóða á fundi veitingamanna að ganga til viðræðna við stjórnvöld um að bannið taki gildi vorið 2007. Bannið á einnig að ná til skemmtistaða og segir Erna að þar horfi menn á samkeppnisstöðuna. Staðirnir séu alla vega og ekki sé nokkur leið að skipta því niður hvar megi reykja og hvar ekki. Því séu menn fullkomlega sammála um að þetta gangi yfir öll fyrirtækin.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×