Erlent

Páfakjör hefst 18. apríl

Tilkynnt var um það í gær að kjör arftaka Jóhannesar Páls II páfa myndi hefjast mánudaginn 18. apríl, en það mun fara fram á lokuðu þingi kardinála kirkjunnar frá öllum heimshornum. Alls 117 kardinálar, allir sem eru undir áttræðu, hafa rétt til að taka þátt í kjörinu, en að minnsta kosti einn þeirra getur ekki mætt af heilsufarsástæðum. Vangaveltur um hver úr hópi kardinálanna sé líklegastur til að verða kjörinn næsti páfi eru komnar á fullan skrið og sumir þeirra hafa verið mjög viljugir til að veita fjölmiðlum viðtöl sem hefur sett vott af kosningabaráttubrag á mót þeirra í Róm. Á forþingi kardinálanna í Páfagarði í gær var ýmislegt rætt um framkvæmd útfarar páfa sem fram fer á morgun, föstudag. Joaquin Navarro-Valls, talsmaður Páfagarðs, sagði að kardinálarnir hefðu á fundinum í gær lesið andlega erfðaskrá Jóhannesar Páls II. Í erfðaskránni er að sögn Navarro-Valls ekki að finna nafn hins dularfulla leynilega kardinála, sem vitað er að páfi útnefndi á árinu 2003. Var þar með endir bundinn á vangaveltur um að einn áður óþekktur viðbótarkardináli myndi bætast í hópinn sem kýs næsta páfa. Dæmi eru um slíka leynilega útnefningu kardinála í löndum þar sem kirkjan sætir ofsóknum. Ítalski herinn hefur komið fyrir loftvarnaflaugaskotpöllum og öðrum búnaði víða um Rómaborg í öryggisskyni fyrir útför páfa vegna hugsanlegrar hryðjuverkahættu. Milljónir trúaðra kaþólikka verða við útförina, svo og hundruð þjóðar- og kirkjuleiðtoga frá öllum heimshornum, þar á meðal núverandi og tveir fyrrverandi forsetar Bandaríkjanna. Það er því hægt að ímynda sér að það sé freistandi fyrir hryðjuverkamenn að reyna að efna til ódæðisverka við þetta tækifæri. En ítölsk yfirvöld gera lítið úr þerri hættu, jafnvel þótt gripið hafi verið til ýmissa varúðarráðstafana. Allt að milljón manns hafði í gær lagt leið sína í Péturskirkjuna þar sem lík hans stendur uppi. Endalaus biðröð pílagríma liggur að kirkjunni. Komið hefur verið upp tjaldbúðum við borgarmörkin vegna mannmergðarinnar sem streymir alls staðar að.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×