Erlent

Talabani kjörinn Íraksforseti

Íraska þingið kaus í gær Kúrdaleiðtogann Jalal Talabani í embætti bráðabirgðaforseta landsins. Með kjörinu rétti þingið fram sáttahönd til kúrdíska minnihlutans, sem lengi var undirokaður. Jafnframt náðist áfangi að því að mynda nýja ríkisstjórn - þá fyrstu í 50 ár sem hefur lýðræðislegt umboð meirihluta Íraka til að fara með völdin í landinu. Kosningin á þingfundinum í gær var í raun formsatriði. Þingmenn höfðu áður náð samkomulagi, eftir margra vikna samningaþjark, um að Talabani settist fyrstur í forsetastólinn, en hefði tvo varaforseta sér til fulltingis - sjía-múslimann Adel Abdul-Mahdi og bráðabirgðaforsetann Ghazi al-Yawer, en hann er súnní-múslimi. Kjör Talabanis varð tilefni mikilla fagnaðarláta í borgum Kúrda í Norður-Írak. Talabani var á sínum tíma helsti foringi uppreisnar Kúrda gegn stjórn Saddams Husseins. Búist er við að Talabani sverji embættiseið í dag, fimmtudag, og skipi strax að því loknu Ibrahim al-Jaafari forsætisráðherra. Þá taka við viðræður um nýja stjórnarskrá sem á að ljúka fyrir 15. ágúst.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×