Erlent

Tryggði sjálfum sér sigurinn

Þingkosningar voru haldnar í Zimbabwe í gær og fóru þær mun friðsamlegar fram en kosningarnar árið 2000. Fáir gera sér hins vegar grillur um að Robert Mugabe, forseti landsins, hafi staðið heiðarlega að framkvæmd þeirra. Kosið var um 120 þingsæti af 150 en Mugabe skipar sjálfur í þau þrjátíu sem eftir eru. Í síðustu kosningum fékk Lýðræðisfylking Morgan Tsvangirai 57 þingsæti en bróðurparturinn af þingmönnunum kom samt úr ZANU-flokki Mugabe. 5,8 milljónir voru á kjörskrá fyrir þessar kosningar og var kjörsókn í gærdag sæmileg. Best var hún í höfuðborginni Harare en í sveitahéruðum mættu fáir á kjörstað. Fjórðungur kjósenda varð frá að hverfa þar sem fólkið var ekki að finna á kjörskrá eða vantaði skilríki. 3,4 milljónum brottfluttra Zimbabwemanna var meinað að greiða atkvæði utan kjörfundar en flestir þeirra eru taldir stjórnarandstæðingar. Samt var lítið um óeirðir, ólíkt því sem gerðist fyrir fimm árum. "Ég held að við séum öll sammála um að þessar kosningar geti ekki talist á nokkurn hátt sanngjarnar eða heiðarlegar," sagði Tsvangirai þegar hann greiddi atkvæði í gær og virðast flestir óháðir stjórnmálaskýrendur vera á sama máli. Þannig er talið að 800.000 manns sem eru löngu dánir séu á kjörskrá og þeir styðja víst allir ZANU. Erlendir kosningaeftirlitsmenn eru sárafáir í landinu og þeir koma frá löndum hliðhollum Mugabe. Engum eftirlitsmönnum frá Evrópu eða Bandaríkjunum var hleypt inn í landið. Mugabe hefur meira að segja hótað því að fella niður matvælaaðstoð við þau héruð sem kjósa stjórnarandstöðuna. Mugabe sjálfur var glaður í bragði þegar hann kaus í gær og sagðist eingöngu greiða atkvæði til að gera sigur sinn ennþá stærri. Hann vísaði ásökunum um svindl á bug. Mugabe er sagður ætla að ná 2/3 hlutum þingsæta til að geta knúið fram stjórnarskrábreytingar. Lífskjör hafa snarversnað í Zimbabwe síðustu ár og er landið orðið mjög einangrað á alþjóðavettvangi vegna ógnarstjórnar Mugabe. Búist er við að úrslit kosninganna liggi fyrir á næstu dögum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×