Erlent

Sundurhlutað lík finnst í Svíþjóð

Plastpoki með líkamshlutum fannst í Stokkhólmi í gær og lögregla rannsakar málið sem morð. Aðstæður minna á margan hátt á morðið í Kaupmannahöfn um páskana. Plastpokinn lá úti á ísi lögðu vatni, nánast beint fyrir neðan Hilton-lúxushótelið í Slussen í Stokkhólmi. Svo virðist sem pokanum, sem var svartur og límdur saman með silfurlituðu límbandi, hafi verið kastað út á ísinn nýlega því hann var ekki frosinn fastur við yfirborðið. Í pokanum voru líkamshlutar af karlmanni sem hafði verið bútaður í sundur. Lögregla vinnur nú baki brotnu við að reyna að bera kennsl á þessa líkamshluta og hefur lítið viljað tjá sig, utan að í pokanum hafi ekki verið allir líkamshlutarnir og því sé verið að leita að afgangi líksins. Tæknideild lögreglunnar rannsakar meðal annars límbandið til að kanna hvort þar sé að finna fingraför eða leifar af þráðum úr fötum eða hugsanlega bílteppi sem gæti svarað því hvernig líkamshlutarnir voru fluttir á staðinn. Málið minnir mjög á svipað morð í Kaupmannahöfn og því hafa fjölmiðlar velt upp þeirri spurningu hvort um eftirhermumorð sé að ræða. Tveir karlmenn og ein kona eru eftirlýst af lögreglunni í Kaupmannahöfn í tengslum við morðið á leigubílstjóranum Torben Vagn Knudsen um páskana en sundurhlutað lík hans fannst á tveimur stöðum í Kaupmannahöfn. Lögreglan hefur nú fundið íbúð þar sem hún telur líklegt að leigubílstjórinn hafi verið myrtur og stendur nú yfir DNA-rannsókn á sýni sem þar fannst.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×