Innlent

Enginn með viðlíka samning

Enginn framkvæmdastjóra stærstu lífeyrissjóða landsins er með viðlíka starfslokasamning og fyrrverandi framkvæmdastjóri Sameinaða lífeyrissjóðsins. Þó er ein meginröksemdin fyrir samningnum að kjörin hafi átt að vera jafn góð og hjá starfsmönnum í svipuðum stöðum. Eins og fram kom í fréttum í gær mun fyrrverandi framkvæmdastjóri Sameinaða lífeyrissjóðsins fá full laun í tvö og hálft ár frá því honum var sagt upp störfum á dögunum. Þetta kostar sjóðinn 43 milljónir króna á tímabilinu. Hallgrímur Gunnarsson, framkvæmdastjóri Ræsis, var stjórnarformaður sjóðsins árið 2000 þegar samningurinn var gerður. Hallgrímur vildi ekki koma í viðtal en sagði að þegar gengið væri frá svona launakjörum væri heildarpakkinn skoðaður. Hann sagði það koma sér á óvart að núverandi stjórn hefði ekki vitað um samninginn en sagði ekkert óeðlilegt við hann samanborið við kjör manna í svipuðum stöðum. En bíðum við. Hverjir eru í svipuðum stöðum? Sameinaði lífeyrissjóðurinn er fimmti stærsti lífeyrissjóður landsins. Gunnar P. Pálsson, varaformaður stjórnar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, næststærsta lífeyrissjóðs landsins, segist hafa spurst fyrir um þetta mál hjá sínum sjóði og samkvæmt hans upplýsingum hafi framkvæmdastjórinn sex mánaða gagnkvæman uppsagnarfrest. Ari Edwald, varaformaður stjórnar Lífeyrissjóðsins Framsýnar, þriðja stærsta lífeyrissjóðs landsins, segir framkvæmdastjórann þar einnig hafa haft sex mánaða uppsagnarfrest og Árni Guðmundsson, framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs sjómanna, fjórða stærsta lífeyrissjóðsins, segir engan starfslokasamning gilda þar. Þar sé eins og hjá hinum sjóðunum bara venjulegur sex mánaða uppsagnarfrestur. Og framkvæmdastjóri LSR, stærsta lífeyrissjóðs landsins, er með þriggja mánaða uppsagnarfrest. Spurður um þennan samanburð á kjörum manna í svipuðum stöðum vildi Hallgrímur ekkert segja og lagði símtólið á.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×