Innlent

Vill fullvissu fyrir frelsi

Stuðningsmenn skákmeistarans Bobby Fischers áttu fund með Allsherjarnefnd Alþingis í gærmorgun. Þeir lögðu fram upplýsingar um atburðarásina í Japan, viðræður sínar við japanska stjórnmála- og embættismenn og möguleika Fischers á að losna frá Japan. Stuðningsmenn Fischers telja sig hafa sterkar vísbendingar um að Fischer verði sleppt lausum hafi hann íslenskt ríkisfang og honum leyft að fara til Íslands. "Þessar upplýsingar eru ekki staðfestar af stjórnvöldum heldur er þetta bara haft eftir samtölum við menn. Nú þurfum við að leggja mat á þessi gögn. Það er spurning hvaða áhrif þau hafa á framvindu málsins," segir Bjarni Benediktsson, formaður Allsherjarnefndar, og vill ekkert segja um það hvenær málefni Fischers verði næst tekið fyrir eða líkurnar á því að Fischer fái íslenskt ríkisfang. "Ég get sagt fyrir mitt leyti að það þarf að vera á hreinu að þessar upplýsingar standist ef þær eiga að móta afstöðu einstakra manna til þess hvað eigi að gera í þessu máli. Maður þarf að hafa fullvissu fyrir því að þessar upplýsingar séu réttar," segir hann. Ákveði allsherjarnefnd að veita Fischer ríkisborgararétt þá segir Bjarni að afgreiðsla málsins taki aðeins örfáa daga. Málið þurfi þá ekki að fara aftur til nefndarinnar á milli fyrstu og annarrar umræðu en það verði samt að fara í hefðbundnar þrjár umræður á þinginu. Hann segir ekkert fordæmi fyrir hendi. Fischer er nú laus úr einangrun í innflytjendabúðunum í Japan. Hann hringdi til íslenskra vina sinna í gær og sagði að síðustu dagar hefðu verið algjör martröð.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×