Innlent

Mikill uppgangur í Stykkishólmi

Óvenjumikil gróska er í húsbyggingum í Stykkishólmi, svo mikil að elstu menn segjast ekki muna annað eins. Að sögn Óla Jóns Gunnarssonar bæjarstóra eru um fimmtán íbúðir í einbýlis- og ráðhúsum nú í smíðum í Hólminum. Helmingur þeirra rís við Laufásveg skammt frá hjarta bæjarins þar sem elsta byggðin er. Hinn helmingur húsanna rís við tvær nýjar götur í jaðri byggðarinnar, Tjarnarás og Hjallatanga. Þessi framkvæmdagleði í helsta skelveiðibæ landsins kemur nokkuð á óvart í ljósi þess að fyrir tveimur árum voru veiðar á hörpudiski bannaðar á Breiðafirði. Það hljóma því eins og hrein öfugmæli að eftir áfall í atvinnumálum skuli vera fleiri íbúðir í smíðum en elstu menn muna. Óli Jón segir að það hafi verið feiknarlegt áfall þegar skelveiðarnar hafi verið stöðvaðar en hins vegar hafi fyrirtækin í bænum brugðist við af miklum dugnaði og krafti og skapað það mikla atvinnu að atvinnuleysi sé ekkert í bænum. Helsti verktakinn er fyrirtækið Skipavík, einkum þekkt fyrir skipasmíðar, en hefur nú einnig haslað sér völl í húsbyggingum. Sævar Harðarson, framkvæmdastjóri Skipavíkur, segir að í Stykkishólmi virðist það vera þannig, eins og svo oft vill verða, að þegar eitthvað falli niður komi aðrar hugmyndir upp og menn bíti í skjaldarrendur og haldi áfram. Hann eigi von á því að Skipavík byggi 40-50 íbúðir á næstu fimm til sex árum í Stykkishólmi. Fleira er byggt en íbúðarhús. Framkvæmdir eru að hefjast við stækkun hótelsins þar sem á að bæta á við 45 herbergjum. Þá er Skipavík að byggja upp hverfi orlofshúsa við Arnarvog skammt utan Stykkishólms sem bæði starfsmannafélög og einstaklingar á höfuðborgarsvæðinu hafa verið að kaupa. Aðspurður hvað menn sjái við Stykkishólm segir Sævar að menn þurfi aðeins að líta í kringum sig til að sjá það, umhverfið sé fagurt og öll þjónusta sé á svæðinu. Þetta sé staðurinn í dag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×