Sport

Fréttablaðið lét Þórð vita

Það vakti athygli að landsliðsþjálfararnir, Ásgeir Sigurvinsson og Logi Ólafsson, skyldu ekki velja Þórð Guðjónsson í landsliðshópinn fyrir leikina gegn Króötum og Ítölum. Það vekur ekki síður athygli að þeir sáu sér ekki fært að tilkynna Þórði um ákvörðun sína heldur kom það í hlut blaðamanns Fréttablaðsins sem hringdi í Þórð seinni partinn í gær. "Er búið að tilkynna hópinn?" sagði Þórður undrandi þegar blaðamaður Fréttablaðsins sagði honum frá landsliðsvalinu. "Ég hafði ekkert heyrt frá neinum og þú ert að segja mér nýjar fréttir. Það er alveg á hreinu að ég er ekki valinn út af lélegri frammistöðu með landsliðinu. Þetta kemur mér virkilega á óvart og svolítið aftan að mér. " sagði Þórður sem var greinilega nokkuð brugðið við tíðindin. "Ég er sár yfir því að það hafi ekki verið talað við mig og að ég þurfi að fá fréttirnar frá ykkur." Þórður sagðist telja ástæðuna fyrir vali landsliðsþjálfaranna vera sú að hann væri ekki að spila reglulega með sínu liði. Ef það er ástæðan kemur hún nokkuð á óvart því Þórður hefur oft leikið vel með landsliðinu þótt hann hafi ekki leikið reglulega. Nú síðast gegn Möltu í október þegar Þórður var í byrjunarliðinu nýstiginn upp úr meiðslum. Ásgeir landsliðsþjálfari á þátt í því að Þórður fór til Stoke enda stjórnarmaður hjá félaginu og Þórður er heldur ekki sáttur við hvernig það hefur farið. "Ásgeir á stóran hlut í því að ég kom hingað," sagði Þórður en seldi Ásgeir honum það að ef hann kæmi fengi hann að spila? "Já, í raun og veru. Það er ástæðan fyrir því að ég kom til Stoke enda lækkaði ég mig mikið í launum með því að koma hingað með það fyrir augum að ég fengi tækifæri," sagði Þórður en finnst honum að hann hafi verið hafður að fífli? "Nei, ég myndi ekki orða það þannig en það er margt skrítið við þetta."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×