Sport

Malasía verður prófraunin

Giancarlo Fisichella, ökumaður Renault liðsins í Formúlu 1, spáir því að kappaksturinn í Malasíu um næstu helgi verði mikil prófraun á liðin og að þar muni koma betur í ljós hvernig þau standa að vígi í keppnum ársins. "Keppnin í Malasíu verður gjörólík keppninni í Ástralíu og reynir meira á bæði ökumenn og bíla", sagði Ítalinn.  "Nú fáum við að sjá betur hvernig það kemur út að hafa bara einn dekkjagang í keppni, því aðstæður í Malasíu eru dekkjunum mun erfiðari en í Ástralíu, ekki síst vegna hitans.  Ég held að við fáum góða mynd af getu liðana fyrir átökin í ár um næstu helgi.  Á brautinni eru margar erfiðar beygjur og þær reyna mjög á hvað bílarnir eru góðir og svo eru þar líka beygjur sem góðir ökumenn geta nýtt sér til framdráttar", sagði Fisichella, sem er afar ánægður með sitt lið eftir að hafa unnið sigur í fyrstu keppni ársins og þakkar það mörgu leiti vel heppnuðum dekkjum frá Michelin, en þeir hafa fram að þessu ekki riðið feitum hesti frá keppni dekkjaframleiðenda undanfarin ár en hafa komið sterkir inn á þessu ári.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×