Innlent

Varúðarráðstafanir í Grímsey

Hafís er nærri landi við Vestfirði, úti fyrir öllu Norðurlandi og austur fyrir Langanes. Hreppstjórinn í Grímsey segir þungt hljóð í eyjarskeggjum en í gær sóttu Grímseyingar vír til Dalvíkur og var ætlunin að strengja hann fyrir höfnina til að verja báta og hafnarmannvirki. Bjarni Magnússon, hreppstjóri í Grímsey, segir að ísinn hafi verið kominn nálægt eyjunni í gærmorgun og sjáist þá vel frá byggðinni. "Þegar líða tók á daginn fjarlægðist hann aftur og rak austur eftir en nú er spáð norðaustlægum áttum og þá viðbúið að hann leggist alveg að eyjunni. Það er ekki gott hljóð í mannskapnum í eyjunni og allt útlit fyrir að landsins forni fjandi lami atvinnulífið í Grímsey," segir Bjarni. Þór Jakobsson veðurfræðingur segir fulltrúa frá Almannavörnum hafa fundað með veðurfræðingum á Veðurstofunni í gær og vel sé fylgst með ísnum. Siglingaleiðin fyrir Horn var greiðfær í gær en Þór segir hana varasama í myrkri vegna stakra jaka. Sömuleiðis er siglingaleiðin við Óðinsboga í vestanverðum Húnaflóa varhugaverð.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×