Innlent

Varðskipunum breytt í Póllandi

Landhelgisgæslan samdi í vikunni við pólsku skipasmíðastöðina Morska Stocznia Remontova um breytingar og endurbætur á varðskipunum Ægi og Tý í kjölfar útboðs sem Ríkiskaup hafði umsjón með. Samningstímabilið er tvö ár og verður Ægi breytt í sumar en Tý sumarið 2006. Tilboð voru opnuð 27. janúar sl. og voru sex þeirra metin gild. Þar af voru tvö frá íslenskum skipasmíðastöðvum, Þorgeiri og Ellerti á Akranesi og Slippstöðinni á Akureyri. Morska bauð sem nemur tæplega 274 milljónum íslenskra króna í breytingar á báðum varðskipunum en önnur tilboð voru mun hærri og það hæsta 228% hærra en lægsta boð. Kostnaðaráætlun Landhelgisgæslunnar hljóðaði upp á um 191 milljón íslenskra króna en helstu ástæður þess hversu miklu munar á henni og lægsta boði er m.a. að á sl. ári hækkaði verð á stáli mikið. Þá er og gert ráð fyrir að verkið verði unnið á háannatíma hjá skipasmíðastöðvum. Þegar tilboð í verkin voru metin var ekki eingöngu tekið mið af fjárhæðum. Litið var til þess hvort fyrirtækin höfðu ISO-vottun og reynslu af sambærilegum verkum. Morska var ekki eingöngu með lægsta tilboðið í krónum talið heldur hafði það einnig ISO-vottun og mikla reynslu. Gefin voru stig fyrir fyrirfram gefna þætti og fékk Morska 97 stig af 100 mögulegum en önnur fyrirtæki voru með talsvert lægri einkunn.   Í verkinu felst að brú skipanna verður endurnýjuð og hún stækkuð. Stjórnbúnaður og rafmagnslagnir í brúnni verða endurnýjaðar ásamt stjórnpúltum. Mjög fullkominn samhæfður tölvustjórnbúnaður verður í nýjum stjórnpúltum. Íbúðir áhafnarinnar og dráttarvindur skipanna verða endurnýjaðar. Einnig verður sett niður stærri og fullkomnari vinda með átaksstjórnun. Þessar breytingar eru samhliða hefðbundinni slipptöku skipanna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×