Innlent

Virkjanir ræddar á breska þinginu

Á hálendi Íslands eru töfrandi fagrar óbyggðir og í landinu er byggt á stoltum, sjálfstæðum hefðum. Hætt er við að grafið verði undan hvoru tveggja með yfirgangi voldugra, alþjóðlegra fyrirtækja. Þetta segir Sue Doughty, þingmaður á breska þinginu, sem vill að þingið geri athugasemdir við ólögleg áform um virkjun hálendisins.  Doughty er skuggaumhverfisráðherra Frjálslyndra demókrata á Bretlandi og henni líkar lítt við áform um byggingu virkjunar við Kárahnjúka eða annars staðar á hálendinu. Til að lýsa andstöðu sinni og jafnframt stuðningi við íslenska umhverfisverndarsinna hefur hún lagt fram ályktunartillögu á breska þinginu þar sem segir meðal annars að þingdeildin hafi verulegar áhyggjur af virkjunaráætlunum Íslendinga. Skipulagsstofnun hafi til að mynda hafnað Kárahnjúkavirkjun vegna verulegra, óafturkræfra og neikvæðra umhverfisáhrifa; að í hættumati sem Náttúrverndarsamtök Íslands létu gera sé komist að þeirri niðurstöðu að verkefnið geti haft í för með sér nettókostnað fyrir íslenskt hagkerfi; að íslenskir dómstólar hafa úrskurðað að umhverfismatið sem lagt var fram með, til grundvallar starfsleyfisumsókn um byggingu álbræðslunnar, sé ógilt og fleira í þeim dúr. Í lok tillögunnar segir að breska þingið fari þess á leit við bresku ríkisstjórnina að hún noti pólitísk og diplómatísk tengsl við ríkisstjórn Íslands til að hvetja hana til að stöðva framkvæmdir við Kárahnjúka og á svipuðum stöðum sem ógnað er af þungaiðnaði svo hálendi Íslands verði verndað til ánægju fyrir framtíðarkynslóðir Íslendinga og gesta þeirra. Fjórir þingmenn lögðu tillöguna fram með Doughty: einn íhaldsmaður og einn úr þjóðernisflokki Wales, auk annars frjálslynds demókrata. Að sögn aðstoðarmanns þingmannsins er tilgangurinn að vekja athygli á umhverfismálum á Íslandi en það voru íslenskir umhverfisvernarsinnar sem leituðu liðsinnis Doughty í upphafi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×