Innlent

Eimskip gert að rýma fyrir öðrum

Bæjarráð Akureyrar vill að leigusamningi um lóð Eimskipafélags Íslands á hafnarsvæðinu á Akureyri verði sagt upp. Bæjaryfirvöld vilja geta boðið öðrum skipafélögum aðgang að hafnarsvæðinu en Eimskipafélagið hefur eitt skipafélaga haft aðstöðu á Oddeyrarhöfn. Hörður Blöndal hafnarstjóri segir að Eimskip hafi samning um tvær lóðir á hafnarsvæðinu en ætlunin sé að segja upp lóð sem er austan Oddeyrarskála. Með því skapist nægilegt rými fyrir opna gámavelli sem fyrirtæki sem stunda sjóflutninga geti nýtt sér. "Við höfum verið upp á náð og miskunn Eimskips komnir varðandi fyrirgreiðslu við önnur skipafélög en höfum ekki efni á að fyrirtæki sem stundar landflutninga geti lokað hafnarsvæðinu fyrir skipafélögum," segir Hörður. Steingrímur Pétursson, framkvæmdastjóri innanlandssviðs Eimskips, segir að félaginu lítist illa á að bæjaryfirvöld ætli að segja samningnum upp. "Við höfum ekki hindrað nein skipafélög eða útgerðir í að athafna sig á svæðinu og það kemur okkur á óvart að bæjaryfirvöld hyggist segja samningnum upp," segir Steingrímur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×