Innlent

Geta skuldbreytt námslánum

Námsmenn sem tóku lán eftir árið 1992 geta nú skuldbreytt lánunum og breytt afborgunarkjörum þeirra. Um er að ræða tæplega 27 þúsund námsmenn sem geta lækkað greiðslubyrði sína um tugi þúsunda á ári. Í desember voru samþykkt ný lög sem lækkuðu endurgreiðslubyrði námslána úr 4,75 prósentum í 3,75. Þá var einnig gerð sú breyting að fjármagnstekjur þarf nú að telja fram vegna endurgreiðslunnar. Hægt verður að sækja um skuldbreytingu eldri lána sem tekin voru frá árinu 1992. Frestur til að sækja um að skuldbreyta rennur út í lok júní fyrir þá sem eru hættir námi en 1. nóvember fyrir hina. Gunnar Birgisson, stjórnarformaður Lánasjóðs íslenskra námsmanna, segir að meðallán hjá sjóðnum gei verið nálægt þremur milljónum og fyrir mann með 2,5 milljónir í tekjur 50 þúsund í fjármagnstekjur geti breytingin leitt til þess að greiðslur lækka um 25 þúsund á ári og greiðslutími lengist úr 30 árum í 38. Ef tekjurnar séu 4,6 milljónir samtals lengist greiðslutíminn úr 18 árum í 22 og endurgreiðslan minnki um 45 þúsund krónur á ári. Fyrir þá sem hafa miklar fjármagnstekjur þarf skuldbreytingin ekki endilega að vera hagstæð. Gunnar segir að ef fjármagnstekjur nemi einni til þremur milljónum þurfi fólk að hugsa sig vel um áður en farið sé í skuldbreytingu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×