Innlent

Tryggur kjarni viðskiptavina

 Kjarni þeirra viðskiptavina er mjög tryggur og heldur sig við sinn kaupmann og sína hverfisverslun hvað sem á gengur. Þetta segir Gunnar Jónasson kaupmaður í versluninni Kjötborg í Vesturbænum. "Ég skil nú ekki hvaða útspil þetta er hjá Krónunni," sagði Gunnar. "Þeir þóttust vera ódýrir þegar þeir byrjuðu. Okkar skoðun, smákaupmannanna, er sú að ríkissjóður sé að fjármagna þetta mest út af virðisaukanum. Þessir peningar skila sér ekki í ríkiskassann því það er verið að borga með vörunum til þess að drepa aðra. Í nágrannalöndunum er þetta bannað, en við Íslendingar höfum leyft þetta til að halda verðbólgunni niðri." Gunnar sagði að búið væri að drepa alla smákaupmenn sem hægt væri að drepa. "En Vesturbæingar eru tryggir við sínar búðir," sagði hann. "Hérna hafa skapast persónuleg samskipti við fólk, svo sem reikningsviðskipti, heimsendingar og ýmis þjónusta sem er ekki í nýrri hverfunum."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×