Innlent

Gæslan kaupir eldsneyti í Færeyjum

Íslensku olíufélögin hafa farið svo illa með Landhelgisgæsluna að ákveðið hefur verið að kaupa ekki af þeim eldsneyti, nema brýna nauðsyn beri til. Þetta segir forstjóri Landhelgisgæslunnar sem kaupir nú aðallega eldsneyti frá Færeyjum fyrir flotann og sparar í leiðinni. Landhelgisgæslan kaupir eldsneyti fyrir um 70 milljónir króna á ári, fyrir varðskipin þrjú og flugvélar í hennar eigu. Varðskipin eru iðulega með gæslu á hafsvæðinu á milli Íslands og Færeyja en í Færeyjum kýs Gæslan helst að kaupa olíu. Skipin sigla svo drekkhlaðin til hafnar og olíunni er dælt á varðskipið Óðin sem orðinn er nokkurs konar eldsneytisgeymsla. - Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, fullyrðir að fyrirkomulagið hafi sparað Gæslunni um 14 milljónir á síðasta ári. „Við eigum ekki of mikið af peningum og það er náttúrlega alls ekki gott að hafa þurft að borga allt of mikið fyrir olíu í gegnum árin. Við erum að reyna að bregðast við því með einhverjum hætti og kaupum því ekki olíu hjá íslenskum olíufélögum, nema brýna nauðsyn beri til,“ segir Georg. En Landhelgisgæslan hefur ekki eingöngu kosið að beina viðskiptum sínum út fyrir landssteinana. Hún kannar nú einnig hvort grundvöllur sé fyrir skaðabótamáli á hendur olíufélögunum vegna viðskipta á liðnum árum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×