Innlent

Enginn þroskaþjálfi á Sólheimum

Enginn þroskaþjálfi starfar við Sólheima á Grímsnesi þrátt fyrir athugasemdir um skort á faglegri þjálfun vistmanna. Formaður þroskaþjálfafélagsins segir hugmyndir forráðamanna Sólheima ekki samræmast nútíma hugmyndum um þátttöku fatlaðra í samfélaginu. Enginn þroskaþjálfi er starfandi við Sólheima í Grímsnesi, þar sem búa fjörutíu fatlaðir einstaklingar samkvæmt sérstökum þjónustusamningi við ríkið, sem greiðir ríflega 160 milljónir á ári vegna þessara einstaklinga. Ríkisendurskoðun gerði athugasemd við þetta í skýrslu sinni árið 2002 og taldi að það skorti á fagkunnáttu til að gera áætlanir til að fylgja eftir og efla sjálfstæði og færni hinna fötluðu. Salóme A. Þórisdóttir, formaður Þroskaþjálfafélags Íslands, segir yfirleitt ekki auglýst eftir þroskaþjálfum þrátt fyrir athugasemd Ríkisendurskoðunar. Þroskaþjálfar telja ennfremur að samfélagið á Sólheimum sé frekar miðstýrt og samræmist illa hugmyndum um blöndun fatlaðra og ófatlaðra. Salóme segir möndul þessa „þorps“ vera í kringum fötlun. Það sé ekki beint eftir hugmyndafræði þroskaþjálfa sem fyrst og fremst líta svo á að fötluðu fólki eigi að vera boðin staða í samfélaginu á sambærilegan hátt og öllum öðrum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×