Innlent

Íslensk lög á útlensku

Lagaskylda um að öll lög og reglugerðir sem gilda á Íslandi skuli vera á íslenskri tungu verður afnumin með frumvarpi dómsmálaráðherra sem er í lokameðferð Alþingis. Íslensk málnefnd varar alvarlega við lagabreytingunni. Vegna aðildar Íslands að evrópska efnahagssvæðinu streyma til landsins samevrópsk lög og reglugerðir sem taka gildi á Íslandi. Samkvæmt stjórnarfrumvarpi Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra, eins og það lítur út við þriðju og síðustu umræðu í þinginu, verður afnumin lagaskylda um að þýða alla þessa texta yfir á íslensku. „Heimilt er að birta eingöngu erlendan frumtexta milliríkjasamnings ef samningurinn varðar afmarkaðan hóp manna sem með sanngirni má ætlast til að skilji hið erlenda mál vegna menntunar sinnar eða annarrar sérhæfingar,“ segir í frumvarpstexta. Aðrar greinar frumvarpsins veita einnig Alþingi sjálfu og ráðherra heimild til að veita undanþágur frá þýðingarskyldu. Íslensk málnefnd varar alvarlega við þessum undanþágum. Guðrún Kvaran, formaður nefndarinnar, segir að þótt talað sé um afmarkaðan hóp manna þá séu svo margir litlir hópar í okkar fámennisþjóðfélagi sem gæti endað með því hver hópurinn á fætur öðrum fái undanþágur í þessa veru. Í umræðum á Alþingi hafa verið nefnd dæmi um lagareglur sem ráðuneytismenn vilja losna við að þýða, eins og reglur um evrópska þjóðhagsreikninga, tilskipun um flutninga á hættulegum efnum og ákveðnar flugreglur. Guðrún segir að erlendis séu menn mjög hræddir um að ákveðin svið hverfi úr móðurmálinu og yfir til enskunnar. Þær áhyggjur séu einnig til staðar hér á landi. Hún segist ekki vita af hverju þessi lagabreyting sé til meðferðar, hvort sé það vegna skorts á fé eða hreinlega vegna leti. „Ef þetta snýst um peninga þá verðum við að kyngja því að það er dýrt að vera fámenn þjóð,“ segir Guðrún.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×