Innlent

Ekki ljóst hverjum var sagt upp

Rúnar Freyr Gíslason, formaður Félags íslenskra leikara og fastráðinn leikari við Þjóðleikhúsið, segir það að sjálfsögðu erfitt fyrir formann félags að heyra að tæplega einum þriðja hluta fastráðinna starfsmanna hafi verið sagt upp samningi við Þjóðleikhúsið. Fyrstu viðbrögðin séu að boða til félagsfundar og ræða málin. „Þetta kom mjög snögglega upp í gær og við þurfum bara að bera saman bækur okkar. Í kjölfarið mun koma ályktun frá félaginu um uppsagnirnar,“ segir Rúnar. Rúnar segist ekki vita um neinn sem enn hafi fengið uppsagnarbréf; það hafi einfaldlega verið sagt að þeir tíu sem hafi verið styst á samningi verði sagt upp. Það liggur því ekki alveg fyrir hverjum nákvæmlega hafi verið sagt upp.  Ákvörðunin um að segja tíu leikurum við Þjóðleikhúsið upp um mánaðamótin var kynnt á starfsmannafundi í gær. Tinna Gunnlaugsdóttir, nýráðinn þjóðleikhússtjóri, segist í tilkynningu telja að ráðningasamningar leikara við húsið séu að mörgu leyti óheppilegir fyrir hið listræna starf. Flestir leikarar Þjóðleikhússins eru fastráðnir með sex mánaða uppsagnarfrest. Þetta telur Tinna ekki gott kerfi því það bindi hendur hennar og leikstjóra sem ráðnir séu til ákveðinna verka við val á leikurum í sýningar sínar. Hún telur þörf á að breyta þessu og til að gefa tóninn hefur hún nú sagt upp þeim tíu leikurum sem stystan starfsaldur hafa. Ekki hefur náðst í Tinnu Gunnlaugsdóttur þjóðleikhússtjóra í dag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×