Innlent

Hörð gagnrýni frá kennurum

Vegna mistaka í launavinnslu Reykjavíkurborgar í desember hyggst launadeild borgarinnar draga ofgreidd laun af kennurum um næstu mánaðarmót. Hefur þetta komið flatt upp á þá kennara sem um ræðir enda getur upphæðin numið allt að 70 prósentum af mánaðarlaunum viðkomandi. Fjölmargir kennarar hafa lýst furðu sinni á þessari einhliða ákvörðun enda sé ljóst að málið hefði mátt vinnast með öðrum hætti og í samkomulagi við kennara. Er um að ræða þau ofgreiddu laun sem kennarar fengu vegna verkfalls þeirra í haust og er um talsverða fjármuni að ræða í mörgum tilvikum. Gagnrýna kennarar að enginn fyrirvari skuli vera hafður á og að frádrátturinn komi illa við marga þeirra vegna þess. Getur hann verið á bilinu fjögur þúsund og allt upp í 80 þúsund krónur fyrir þá er verst verða úti. Ekki náðist í Ólaf Loftsson, formann Kennarafélags Reykjavíkur, vegna málsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×