Innlent

Gengið fram af hörku

Stjórnlaus innflutningur erlends verkafólks var ræddur á miðstjórnarfundi ASÍ í síðustu viku. Þar kom fram að verkalýðshreyfingin vill vara við þessum innflutningi og telur mikilvægt að mótuð verði stefna til að viðhalda og treysta kjör og samskipti á íslenskum vinnumarkaði. Gripið verði til allra tiltækra ráða til að koma í veg fyrir undirboð og svarta atvinnustarfsemi sem byggir á misnotkun á erlendu vinnuafli og að gengi verði fram af hörku gagnvart fyrirtækjum sem stunda svarta atvinnustarfsemi og brjóta lög og samninga. Þá verði settar reglur sem miða að því að setja ramma um starfsmannaleigur og vinnumiðlanir hér á landi. Samkvæmt áreiðanlegum heimildum Fréttablaðsins telur verkalýðshreyfingin mikilvægt að efla samstarf og samráð stjórnvalda, verkalýðshreyfingarinnar, aðila vinnumarkaðarins og annarra sem koma að málum útlendinga á vinnumarkaði. Bæta verði upplýsingaflæði og treysta framkvæmd laga og reglna, til dæmis eftirlit með útlendingum og fyrirtækjum sem þeir starfa hjá. Innan verkalýðshreyfingarinnar heyrast háværar raddir um að mótuð verði stefna um útgáfu atvinnuleyfi til einstaklinga sem koma utan EES og að tekin verði af öll tvímæli um það hvaða skilyrði þetta fólk þurfi að uppfylla. Sú ósk hefur komið fram að viðkomandi verði meðal annars að vera fastur starfsmaður hjá útsendingarfyrirtækinu. Verkalýðshreyfingin vill að kannaðir verði möguleikar á samstarfi við vinnumiðlanir í nýju aðildarríkjunum innan EES til að draga úr hættunni á miðlun fólks, sem getur orkað tvímælis með einhverjum hætti, og að fyrirtækjum verði leiðbeint um samstarf við vinnumiðlanir. Þá verði skoðað hvort hægt sé að fresta opnun sameiginlega vinnumarkaðarins gagnvart íbúum nýrra aðildarríkja EES og að tekið verði á skattamálum vegna erlendra starfsmanna sem hingað koma á vegum starfsmannaleiga og í gegnum þjónustusamninga.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×