Innlent

Ekki á flokksþingi Framsóknar

Guðmundur Daðason, elsti framsóknarmaður í heimi, er ekki á flokksþingi Framsóknarflokksins sem hófst á Nordica hótelinu í gær og lýkur á morgun. Hann fylgdist þó með útsendingum frá þinginu á Sýn í gær. Guðmundur fæddist í nóvember árið 1900 og er því á hundraðasta og fimmta aldursári. Hann er elsti félaginn í Framsóknarflokknum og gekk í hann við stofnun 1916. Hann er heiðursfélagi Framsóknarfélags Reykjavíkur og á skjal því til staðfestingar. Í viðtali við Fréttablaðið fyrr í mánuðinum sagði Guðmundur að áhuginn á stjórnmálum hefði dvínað með árunum en lýsti þó skoðunum sínum á einu öðru. Sagði hann Siv Friðleifsdóttur, vinkonu sína, vera sóma framsóknarmanna og að bræðurnir Páll og Árni Magnússynir hefðu bolað henni úr áhrifastöðum og grafið undan trausti. Honum líst engan veginn á flokkinn núna og sagði mikla óeiningu ríkja innan hans. Hægt er að fylgjast með gangi mála á flokksþinginu á framsokn.is.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×