Innlent

Ekki alsæll með nýja nafnið

Guðjón Ármann Eyjólfsson, sem var skólastjóri Stýrimannaskólans og Vélskólans í rúm tuttugu ár, er ekki nema rétt mátulega ánægður með hið nýja nafn skólanna, sem er Fjöltækniskóli Íslands. "Það er hvergi minnst á sjó í þessu nýja nafni," segir Guðjón Ármann, sem sjálfur stakk upp á nafninu Háskóli sjávarútvegs og siglinga enda áhugasamur um að nám í þessum fræðum verði fært á háskólastig, líkt og gert hefur verið í landbúnaði. Hann minnir þó á að húsið tignarlega sem skólinn er í er helgað íslenskum sjómönnum og það verður ekki af því tekið. "Menn eru að reyna að feta nýja braut og laða að nýja nemendur," segir hann og óskar stjórnendum skólans alls hins besta. Hinn nýi Fjöltækniskóli stendur á gömlum grunni. Stýrimannaskólinn var stofnaður 1891 og Vélskólinn 1915. Sjálfur lærði Guðjón Ármann sín fræði í Sjóliðsforingjaskóla danska flotans og er því sjóliðsforingi að mennt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×