Erlent

Tugir látnir í árásum á moskur

Tugir liggja í valnum eftir árásir sem voru gerðar á að minnsta kosti tvær moskur sjítamúsíima í Bagdad í Írak í morgun. Shítar halda eina mikilvægustu trúarhátíð sína þessa dagana. Sjálfsmorðsárásarmaður drap 17 hið minnsta og særði 22 inni í sjítamosku í suðurhluta Bagdad í morgun. Sjónarvottar segja að árásarmaðurinn hafi borið sprengjubelti um sig miðjan og kveikt í þegar hann kom inn í moskuna. Árás var gerð á aðra mosku skömmu síðar og er talið að að minnsta kosti einn maður hafi látið þar lífið. Sjítamúslímar halda þessa dagana upp á Ashura sem er mikilvæg trúarhátíð til minningar um píslarvætti barnabarns Múhameðs spámanns. Hátíðin nær hápunkti á morgun og yfirvöld óttast að öfgahópar nýti tækifærið til árása. Á Ashura-hátíðinni á síðasta ári létu fleiri 180 manns lífið í árásum öfgamanna. Það eru öfgahópar súnníta sem standa á bak við þessar árásir á sjíta. Þeir höfðu undir stjórn Saddams Husseins töglin og hagldirnar í Írak en nú hafa sjítar náð völdum, en þeir eru bæði í meirihluta í landinu og unnu sigur í nýafstöðnum þingkosningum. Reynt er að koma til móts við þessa óánægju súnnímúslima með því að bjóða fulltrúum þeirra með í nýju ríkisstjórnina sem verið er að móta. Ibrahim al-Jaafari, sem fer fyrir bandalagi sjíta og er talið að verði næsti forsætisráðherra Íraks, segir að í ríkisstjórninni verði að vera fulltrúar allra helstu hópa í landinu, ekki bara sjíta heldur líka Kúrda og og súnníta þrátt fyrir að þeir hafi nær ekkert fylgi hlotið í nýafstöðnum kosningum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×