Erlent

Hundruð þúsunda við útförina

Hundruð þúsunda manna fylgdu Rafik Hariri, fyrrum forsætisráðherra Líbanons, til grafar. Alls staðar þar sem farið var með kistu forsætisráðherrans fyrrverandi tók fólk sér stöðu, á gangstéttum, úti á götum og í nærliggjandi byggingum. Syrgjendur öskruðu skammaryrði um Sýrlandsstjórn og Bashar Assad, forseta Sýrlands. Fór ekki á milli mála að margir syrgjendur kenna Sýrlendingum um morðið á Hariri. "Fjarlægið hundana ykkar frá Beirút," heyrðist kallað og var þar vísað til sýrlensku leyniþjónustunnar sem er hluti þess 15 þúsund manna herliðs sem Sýrlendingar hafa í Líbanon. Súnnískir klerkar, leiðtogar Drúsa, sjíar og kristnir menn tóku þátt í jarðarför Hariri og þykir það til marks um vinsældir hans og hversu vel honum tókst að fá deilandi fylkingar til að vinna saman í stjórnartíð sinni. Ættingjar Hariri vöruðu líbönsk stjórnvöld, sem eru höll undir Sýrlendinga, við því að láta sjá sig. Kemur það ekki á óvart í ljósi þess hversu mikil andstaðan við Sýrlendinga og líbanska fylgismenn þeirra var.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×