Erlent

Engin lyf duga á HIV-afbrigðið

Bráðsmitandi afbrigði HIV-veirunnar hefur fundist í Bandaríkjunum. Engin lyf virðast duga á þetta afbrigði, sem dregur menn til dauða á mun skemmri tíma en hingað til hefur sést. Afbrigðið fannst í New York í síðustu viku og hefur valdið töluverðu uppnámi. Þau lyf sem hingað til hafa getað slegið á veiruna duga ekki gegn þessu afbrigði auk þess sem það leiðir til alnæmis á mun skemmri tíma en þau afbrigði HIV-veirunnar sem þekkst hafa hingað til. Yfirmaður heilbrigðismála í New York segir tíðindin grafalvarleg og voru um helgina gefin út fyrirmæli til allra heilbrigðisstofnana í borginni um að taka þá sem nýlega voru greindir til nánari skoðunar til að ganga úr skugga um að þeir væru ekki með þetta nýja afbrigði. Það var maður á fimmtugsaldri sem greindur var, en hann hafði átt mök við hundruð karlmanna án þess að nota verju. Haraldur Briem sóttvarnalæknir segir enn óljós hvort að bráð og yfirvofandi hætta stafi af þessu afbrigði. Það sé athyglisvert að sá sem hafi sýkst hafi ekki verið í neinni lyfjameðferð áður og því sé líklegt að veiran sé komin annars staðar frá og hugsanlega hafi hún umbreyst vegna lyfjaónæmis. Spurður hvaða afleiðingar þetta geti haft segir Haraldur að ef þessi tiltekni stofn breiðist út séu meðferðarúrræði mun takmarkaðri og því gæti afbrigðið orðið erfitt viðureignar. Afbrigðið minni jafnframt á að alnæmisfaraldurinn sé ekki liðinn hjá og sú meðferð sem boðið sé upp á í dag geti orðið miklu áhrifaminni í framtíðinni. Sumir alnæmissérfræðingar segja ótímabært að draga víðtækar ályktanir vegna þess nýja veiruafbrigðis og saka starfsbræður sína í New York um að skelfa fólk. Haraldur er ekki sammála því. Honum finnist nauðsynlegt að vekja athygli á afbrigðinu, sérstaklega hjá þeim sem séu með áhættuhegðun. Björninn sé langt því frá unninn og fólk þurfi að gæta sín svo það smitist ekki.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×