Erlent

Vill auka vægi ESB innan NATO

Hætta er á að Atlantshafsbandalagið verði úrelt verði ekki brugðist við, að mati Gerhards Schröders, kanslara Þýskalands. Hann kynnti um helgina hugmyndir sem auka vægi Evrópusambandsins og ýta öðrum þjóðum, þar á meðal Íslandi, út á jaðarinn. Bandaríkjamenn og Evrópuþjóðir hafa ekki verið sammála um framtíðarstefnu bandalagsins um nokkurra ára skeið og ljóst er að Schröder taldi hugmyndir sínar til þess fallnar að bæta úr því. Á öryggisráðstefnu í München um helgina voru kynntar hugmyndir hans sem gera meðal annars ráð fyrir því að nýjum vettvangi til að samhæfa stefnu og aðgerðir stjórnvalda í Washington og Evrópusambandsins verði komið á fót og að Evrópusambandið hljóti meira vægi í samstarfinu. Verði þessum hugmyndum hrint í framkvæmd eru það slæm tíðindi fyrir þær bandalagsþjóðir sem standa utan Evrópusambandsins: Noreg, Kanada, Tyrkland og Ísland, að mati Jans Petersens, utanríkisráðherra Noregs. Þær þjóðir væru þar með komnar út á áhrifalítinn jaðar og hefðu lítið að segja. Óhætt er að segja að hugmyndir Schröders hafi bæði vakið mikla athygli og hörð viðbrögð. Donald Rumsfeld, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, vísaði þeim á bug og sagði unnið að því að endurnýja ferli innan Atlantshafsbandalangsins en að Bandaríkjamenn hefðu enn fremur engan áhuga á að binda sig við bandalagið heldur starfa með þeim sem hentaði hverju sinni. Þýskir stjórnmálamenn og utanríkismálastjórar Evrópusambandsins vísa hugmyndunum á bug á öðrum forsendum: Schröder tali eins og NATO sé í kreppu en því sé alls ekki fyrir að fara. Allt sé í himnalagi og engin ástæða til að láta eins og samstarf ríkjanna á Atlantshafsásnum gangi þar ekki vel og eðlilega fyrir sig.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×