Erlent

Maður handtekinn vegna mannránsins

Sænska lögreglan hefur handtekið einn mann vegna ránsins á auðjöfrinum Fabian Bengtsson sem nýlega var sleppt úr haldi eftir sautján daga fangavist. Bengtsson var rænt þegar hann var á leið til vinnu sinnar í Gautaborg en náði að láta föður sinn vita af ráninu í farsíma. Mikil leit var gerð að Bengtsson en eftir sautján daga fjarvist fannst hann á bekk í almenningsgarði í borginni. Mannræningjarnir höfðu krafist þess að fá 100 milljónir króna í lausnargjald en ekki hefur fengist staðfest að það hafi verið greitt. Rannsókn málsins var mjög umfangsmikil og skilaði þeim árangri að í gær réðst sænska lögreglan til inngöngu í íbúð í fjölbýlishúsi í miðborg Gautaborgar og handtók þar einn mann. Í íbúðinni fundu lögregluþjónarnir sérsmíðaðan skáp sem Bengtsson mátti dúsa í meðan hann var í haldi. Nágrannar í húsinu urðu einskis varir og er nokkuð brugðið við þær fréttir að þeir tengist með þessum hætti umtalaðasta mannráni í Svíþjóð. Mannræninginn sem var handtekinn er frá einu Eystrasaltslandanna og hefur að sögn hins sænska Aftonbladet  viðurkennt sekt sína. Ekki hefur verið upplýst hvort fleiri tóku þátt í ráninu en fjölmiðlar telja það þó líklegt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×