Sport

Bylting í íslenskri sundsögu

Landsbankamót Ægis - Reykjavík International var háð í nýju og glæsilegu húsnæði í Laugardal um helgina og heppnaðist mjög vel. Aðstandendur keppninar eru allir á einu máli um að mótið marki tímamót í íslenskri sundsögu, að aldrei áður hafi verið keppt hérlendis við eins góðar aðstæður og um helgina. Laugin fékk góða dóma frá keppendum sem sögðu laugina mjög hraða og er það talið öruggt merki um að vel gangi í framtíðinni að lokka hingað sterka sundmenn til að keppa á mótum. Frægasti keppandinn á mótinu hefur sennilega verið sænska sunddrottningin Theresa Alshammar, en hún vann öruggan sigur í 50 metra flugsundi. Örn Arnarson er eins og kunnugt er farinn að synda á fullu á ný eftir mikil meiðsli og vann hann nokkuð öruggan sigur í 50 metra skriðsundi og 100 metra flugsundi. Keppendurnir komu víðsvegar að frá Evrópu og voru 270 erlendir sundmenn á mótinu frá Norðurlöndunum og einnig var hér hópur frá Lúxemborg. Erlendu keppendurnir á mótinu voru allir hæst ánægðir með mótið og nýju laugina og segjast vel getað hugsað sér að koma aftur að ári á mótið, sem hefur verið haldið síðan 1989. Guðmundur Harðarson, sundsérfræðingur, segir muninn á því að halda mótið í nýju 50 metra lauginni gríðarlegan, en því fylgi líka aukin umsvif. "Í hvern mótshluta í þessari laug þarf um 26 dómara, 8 tímaverði og annað starfsfólk svo að líklega starfa að þessu móti um 55-60 manns. Aðstæðurnar til keppni hér eru slík gerbylting að maður á bara erfitt með að lýsa því. Það urðu örlitlar tafir í byrjun en það fall varð fararheill, þetta gekk eins og smurt eftir það", sagði Guðmundur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×