Sport

Rússi sigraði á opna ástralska

Hinn 25 ára gamli Rússi, Marat Safin, sigraði í einliðaleik karla á opna ástralska mótinu í tennis sem fram fór í Melbourne Park nú um helgina. Keppni lauk nú rétt undir hádegið þegar Safin sigraði heimamanninn Lleyton Hewitt, 1-6, 6-3, 6-4, 6-4. Hewitt hefði með sigri getað orðið fyrsti ástralski meistarinn í sögu mótsins til að vinna á því sigur síðan 1976 eða þegar Mark Edmondson sigraði. Þetta er í annað sinn sem Safin fer með sigur af hólmi á stórmóti en hann vann síðast opna bandaríska tennismótið árið 2000 og var fyrir þetta mót í 4. sæti á alheimsstyrkleikalistanum. Safin gerði sér lítið fyrir á laugardaginn og batt enda á 26 leikja sigurgöngu Roger Federer í undanúrslitunum en Federer er efstur á styrkleikalistanum. Bandaríkjakonan Venus Williams tryggði sér sigur á mótinu í einliðaleik kvenna á laugardag þegar hún vann Lindsay Davenport 2-6, 6-3, 6-0 í úrslitaleiknum. Williams var í 7. sæti styrkleikalista kvenna fyrir mótið en Davenport efst þannig að úrslit mótsins voru ekki eftir bókinni. Í blönduðum tvíliðaleik voru það heimamenn sem fóru með sigur, Scott Draper og Samantha Stosur unnu Kevin Ullyett frá Zimbabwe og Liezel Huber frá Suður Afríku, 6-2, 2-6, 7-6, (6).



Fleiri fréttir

Sjá meira


×